Við sem búum eða höfum búið við vandamál alkóhólisma höfum öðlast skilning sem
fáum er gefinn. Við vorum einnig einmana og ráðvillt, en í Al-Anon verður okkur
ljóst að ekkert er í rauninni vonlaust og það er mögulegt fyrir okkur að finna
ánægju og jafnvel hamingju, hvort sem alkóhólistinn drekkur enn eða ekki.
Við hvetjum ykkur eindregið til að reyna Al-anon leiðina. Hún hefur hjálpað
mörgum okkar til að finna úrlausnir sem leiða til æðruleysis. Afstaða okkar er
mikilvæg og þegar við lærum að setja vandamál okkar í rétt samhengi finnum við
að þau tapa valdi sínu til að stjórna hugsunum okkar og lífi.
Ástandið innan fjölskyldunnar hlýtur að batna þegar við beitum Al-anon
hugmyndinni. Án slíkrar andlegrar hjálpar er flestum okkar um megn að búa með
alkóhólista. Hugsunarháttur okkar brenglast við að reyna að knýja fram
úrlausnir og við verðum uppstökk og ósanngjörn án þess að veita því athygli.
Al-anon leiðin er grundvölluð á tólf reynslusporum AA-samtakanna. Þeim reynum
við að beita smám saman í lífi okkar, einn dag í einu, samhliða slagorðunum og
æðruleysisbæninni. Kærleiksríkur stuðningur okkar hvert við annað og daglegur
lestur Al-Anon lesefnis, gerir okkur fær um að taka við æðruleysinu sem er
ómetanlegt.
Í Al-anon er nafnleynd. Allt sem sagt er á fundum og félaga á milli er
trúnaðarmál. Aðeins á þann hátt getum við óþvinguð sagt það sem okkur býr í
brjósti því þannig hjálpum við hvert öðru í Al-anon.
Sérstaklega
viljum við biðja þá sem eru félagar í öðrum tólf spora samtökum að varðveita
nafnleynd sína sem slíkir og einbeita sér að Al-anon bataleiðinni á þessum
fundi.
No comments:
Post a Comment