Ef við gefum okkur sjálfviljug á
vald andlegum reglum reynslusporanna, mun líf okkar gerbreytast. Við verðum
þroskaðir, ábyrgir einstaklingar sem geta glaðst í ríkulegum mæli, upplifað
undur og fullnægju.
Þó svo að við verðum kannski
aldrei fullkomin munu stöðugar, andlegar framfarir opna okkur gríðarlega mikla
möguleika. Við uppgötvum að bæði erum við ástar verð og getum elskað. Við
elskum aðra án þess að týna sjálfum okkur og við lærum að þiggja ást á móti.
Sýn okkar, sem eitt sinn var þokukennd og ruglingsleg, skýrist og við verðum
fær um að skynja raunveruleikann og finna sannleikann. Kjarkur og samkennd koma
í stað óttans. Við verðum fær um að hætta á að gera mistök til að þróa með
okkur nýja og áður óþekkta hæfileika.
Við munum eignast von, sama
hversu illa leikin og smánuð við vorum orðin, sem við getum deilt með öðrum.
Við förum að upplifa og þekkja víðáttur tilfinninga okkar en við verðum ekki
þrælar þeirra.
Leyndarmálin munu ekki lengur
hlekkja okkur við skömm. Um leið og við öðlumst hæfileikann til að fyrirgefa
okkur sjálfum, fjölskyldum okkar og umheiminum, mun tækifærum okkar fjölga. Með
reisn munum við standa með sjálfum okkur en ekki í vegi fyrir náunganum.
Æðruleysi og friður mun öðlast merkingu hjá okkur um leið og við leyfum lífi
okkar, og lífi þeirra sem við elskum, að streyma fram dag frá degi í guðdómlegu
áreynsluleysi, í jafnvægi og með tign. Þar sem við erum ekki lengur óttaslegin
munum við uppgötva að við getum leyft okkur að njóta þversagna lífsins,
leyndardóma þess og fyllast lotningu.
Við munum hlæja meira. Í stað
óttans munum við sjálfkrafa öðlast trú og þakklæti þegar við gerum okkur ljóst
að æðri máttur er að gera fyrir okkur það sem við getum ekki gert fyrir okkur
sjálf.
No comments:
Post a Comment